Árni Björn Helgason er einn umsvifamesti umboðsmaður Íslands. Fyrir tveimur árum stofnaði hann  Creative Artists  Iceland  sem er fyrsta og eina umboðsskrifstofa sinnar tegundar á Íslandi. Stofan sérhæfir sig í að brúa bilið milli leikara, leikstjóra, áhrifavalda og annars konar skemmtikrafta og þjóðþekktra einstaklinga. Meðal umbjóðenda Árna eru Jóhannes Haukur Jóhannesson, Heida  Reed, Darri Ingólfsson, Dóri DNA, Baldvin  Z, Saga Garðarsdóttir og Hugleikur Dagsson svo fáeinir séu nefndir.

„Ég er lærður matreiðslumaður, lærði á Ömmu  Lú  þegar sá staður var og hét,“ segir Árni en hann hefur komið víða við áður en hann hóf störf sem umboðsmaður. „Ég var í veitingabransanum í 10 ár fyrir mörgum árum og starfaði síðast á Argentínu steikhús. Á þessum tíma var sá staður mikið út á við, var að gera sjónvarpsþætti og fleira og ég gerði tvær sjónvarpsseríur með þeim. Önnur þeirra hét Kokkurinn og piparsveininn sem var sýnd á Skjá Einum og svo var önnur fyrir Stöð 2 sem hét Meistarataktar við grillið.“

Þannig að ferill þinn í dagskrárgerð hefst í raun þar?

„Já, það má segja það. Þarna var ég auðvitað fyrir framan myndavélina að elda og ég hugsaði með mér að þeir sem voru hinum megin við hana væru að gera eitthvað skemmtilegt og áhugavert. Þarna var kominn smá kulnun hjá mér varðandi eldamennskuna og að vinna 12 tíma á dag þó að það hafi reyndar ekkert mikið breyst. En ég keypti mig sem sagt inn í framleiðslufyrirtækið sem gerði Kokkinn og piparsveininn og hét Þeir Tveir. Þarna var ég að vinna með Gunnari  B. Guðmundssyni og Óskari Þór Axelssyni. Reyndar vinn ég í dag sem umboðsmaður fyrir Óskar.

Eftir veru mína í Þeim Tveim fór ég yfir á auglýsingastofuna Fíton þar sem ég starfaði sem tengill. Þetta var á þeim tíma sem sagt var að Fíton væri sætasta stelpan á ballinu á auglýsingamarkaði. Þar starfaði ég fyrir Ölgerðina, 365, Borgarleikhúsið og Heklu o.fl. Ég ákvað að taka mér eins árs frí frá Fíton rétt eftir hrun þegar dóttir mín fæðist. Ári seinna hafði svo Sagafilm samband við mig og bað mig um að taka við erlendu deildinni hjá sér sem ég gerði. Á meðan ég starfaði hjá Saga  Film  kom ég að gerð kvikmynda á borð við Interstellar, Star  Trek, Star  Wars, Pawn Sacrifice o.fl.“

Hversu umfangsmikil var vinnan við þessar myndir?

„Sem dæmi þegar verið var að taka upp hluta af  Interstellar  hér á á landi, þá eyddum við yfir milljarði á 10 dögum. Við vorum með um 350 manns uppi á Svínafellsjökli og úti í á. Þetta var auðvitað rosalegt. Það er ekkert sem getur undirbúið þig undir svona verk-efni nema þú hafir verið í útlöndum í svona verkefnum áður. Á móti kemur að við Íslendingar gerum oft stóra hluti í krafti þess að við föttum ekki hvað við erum lítil. En þótt ég hafi verið nýr í erlendum risaverkefnum, þá hafði Sagafilmbaklandið mikla reynslu í því þannig ég kom síður en svo að tómum kofunum. En  Interstellar  er klárlega með stærri kvikmyndaverkefnum sem hefur verið farið í á Íslandi.“

Hollywood líka lítill heimur

Árni lét af störfum hjá Sagafilm  árið 2015 og í kjölfarið fóru íslenskir leikarar að leita til Árna til að sinna þeirra starfsemi sem hann sinnir í dag en árið 2016 stofnaði hann  Creative  Artists  Iceland. „Þegar ég hætti hjá Sagafilm fóru leikarar sem höfðu starfað erlendis og vissu hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þar að tala við mig og biðja mig um að vinna fyrir sig og í þeirra þágu á Íslandi og á sama tíma að breyta landslaginu hérna heima. Þetta var eitthvað sem vantaði klárlega hér á landi. Einhverjir sögðu að það væri ekki þörf fyrir þetta hérna þar sem nándin væri svo mikil í þessum bransa og allir þekkja alla. En þannig er þetta líka í Hollywood.

Það er meðal annars þessi nánd sem gerir það að verkum að það verður að vera milliliður milli leikaranna og framleiðenda. Annars er t.d. verið að eyða tíma í launakarp hjá aðilum sem eiga að vera í góðu kreatívu samstarfi. Það þurfti því að gera þetta aðeins fagmannlegra. Við erum enn þá á barnsskónum hérna heima í þessu. En flestir framleiðendur hafa tekið þessum breytingum vel.“

Hvaða einstaklingar eru það sem hafa verið með þér frá upphafi?

„Jóhannes Haukur, Salóme Gunnarsdóttir, Saga Garðars og Dóri DNA eru allt einstaklingar sem komu mjög fljótlega inn. Þetta voru um 10 manns sem komu inn strax í byrjun. Eftir það byrjaði boltinn að rúlla.“

Ekkert án hæfileika listamannanna

Að sögn Árna felst starfsemi hans í grunninn um að verja hlut þeirra listamanna sem hann vinnur fyrir. „Það þarf að fara yfir samninga í kvikmyndum og öðrum verkefnum og oft þarf að breyta þeim. Það þarf ákveðið samningalæsi til þess að ná yfir það. Svo er ég að bóka gigg fyrir þá sem eru í skemmtanahlutanum eins og Sögu Garðars, Jono Duffy og Dóra DNA. Ég hef einnig verið að fara út og koma á tengslum við þá sem að velja leikara í bíómyndir og þætti og mynda þessi tengsl sem umboðsmenn erlendis hafa verið að skapa sér síðastliðin 50 ár. Í enda dagsins er ég samt ekkert án hæfileika og stuðnings þeirra sem ég er að vinna fyrir. Starf umboðsmannsins er að kynna ákveðna vöru sem í þessu tilfelli er einstaklingurinn sjálfur. Síðan eru það þeir sem eru að finna fólk í hlutverk og leikstjórar sem á endanum ákveða hverjir það eru sem fara í hlutverkið.

Það er misskilningur fólginn í því að að halda að umboðsmaður reddi leikara ákveðnu hlutverki. Ef viðkomandi hefur ekki það sem þarf þá gerist ekki neitt. Stundum heldur fólk líka að hlutirnir gerist af sjálfu sér. Að tilboðin komi bara til þín vegna þess að það eru allir búnir að sjá þig í sjónvarpinu sem dæmi. Þannig virka hlutirnir ekki, heldur er þetta hellings vinna.“

Hvernig er ferlið frá því að listamaður kemur til þín og þið byrjið að vinna saman?

„Við byrjum á því að setjast niður og ræða hvað það er sem listamanninn langi að gera. Sumir leikarar hafa sem dæmi engan áhuga á að fara út heldur vilja bara vera hérna heima og gera íslenskt efni og ætla að skoða hitt seinna. Þá vilja sumir vera meira í þáttum og í sjónvarpi  o.s.frv. Þannig að við byrjum á því að greina þarfir viðkomandi listamanns. Síðan skoðum við hvaða markaðsefni viðkomandi listamaður er með. Það er þá myndefni af því sem viðkomandi hefur verið að gera sem kallast á ensku  „showreel“. Svo er það hvort ljósmyndin/headshot af viðkomandi sé í lagi og hvort ferilskráin er á hreinu. Þessir þrír hlutir þurfa að vera í lagi því þú þarft að búa til söluvöruna. Þessi sölupakki verður að vera til staðar og í lagi þegar viðkomandi fer út því það gerist ekkert ef þú ert ekki með hlutina í réttri röð hjá þér.

Það eru hins vegar ekki margir nýir listamenn sem komast að hjá mér í dag þar sem ég hef einfaldlega ekki mannafla til þess að sinna öllum og ég vil sinna þeim vel sem ég er með nú þegar. Annars er Ísland það lítið og við þekkjumst vel flest þannig að þetta er ekki eins og úti þar sem umboðsmaðurinn þarf að fara í leikhúsin til að sjá hverjir eru góðir og komast í samband við þá. Ég fer þó alltaf í Listaháskólann til að sjá útskriftarverkefni og önnur verkefni sem eru í gangi þar. Síðan þarf að hlúa að þeim leikurum. Þau eru þá nýútskrifuð og svolítið blaut á bak við eyrun. Þá verður maður að búa til þennan sölupakka þannig að þau líti sem best út út á við, segja þeim að geyma efnið sem þau léku í o.s.frv.,“ segir Árni.

Nánar er rætt við Árna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .