Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið hefur birt greinargerð hæfnisnefndar um embætti forstjóra Vegagerðarinnar, en nefndin mat Bergþóru hæfasta af þeim 22 umsækjendum sem eftir stóðu, þegar 3 höfðu dregið umsóknir sínar til baka.

Hæfnisnefndin samanstóð af Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, sem var formaður, Aðalsteini Ingólfssyni, forstjóra Skinneyjar – Þinganess, og Guðnýju Elísabetu Ingadóttur, mannauðsstjóra í ráðuneytinu.

Umsækjendur voru metnir eftir níu hæfnisflokkum:

  • Menntun (Já eða nei)
  • Reynsla af stjórnun (25%)
  • Reynsla af rekstri og áætlunargerð (20%)
  • Reynsla af stefnumótun (10%)
  • Þekking á samgöngumálum eða atvinnulífi (15%)
  • Reynsla af þáttöku í alþjóðasamstarfi (10%)
  • Hæfileikar til að miðla upplýsingum á góðri íslensku í mæltu og rituðu máli (13%)
  • Góð kunnátta í ensku (5%)
  • Góð kunnátta í öðru Norðurlandamáli (2%)

Bergþóra fékk fullt hús stiga í öllum liðum nema tveimur: hún fékk 3 af 4 mögulegum í liðnum “Þekking á samgöngumálum eða atvinnulífi”, og 2 af 4 í “Reynsla af þáttöku í alþjóðasamstarfi”, og endaði því með 365 stig (hámark 4 fyrir hvern lið, samtals 400). Stigagjöf annarra umsækjenda var ekki nafngreind, en næstu 3 fyrir neðan voru með 356, 348 og 346 stig.

Athygli vekur að þekking á samgöngumálum sé sett í sama flokk og þekking á atvinnulífi, enda ljóst af ofangreindu að ef þekking á samgöngumálum hefði verið sér liður hefði stigagjöfin getað endað öðruvísi.

Vegagerðin skilgreinir hlutverk sitt á eftirfarandi hátt:

„ Að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.”