Fiskeldi á heimsvísu hefur vaxið hratt síðastliðna áratugi og hefur framleiðsla til að mynda sexfaldast á árunum 1990 til 2015. Hins vegar hefur fiskeldi hérlendis ekki vaxið eins ört og í nálægum ríkjum og hafa veiðar verið mun stærri en fiskeldi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg.

Fiskeldi verði stærra en fiskveiðar

OECD spáir því að fiskeldi verði orðið stærra en fiskveiðar árið 2021 og það muni vaxa um 34% næstu 10 árin. Yfir sama tíma munu veiðar þó standa í stað að mati stofnunarinnar.

Í Asíu fer fram meginþorri fiskeldis á heimsvísu en á árinu 2015 var Asíu með um 89% af fiskeldi á heimsvísu eða sem nemur 67 milljónum tonna. Kína er jafnframt langstærst fiskeldissjóða með 62% hlutdeild á markaðinum á heimsvísu. Hins vegar eru Norðmenn stærstir í Evrópu með 45% hlutdeild.

Íslendingar eru í 25. sæti á meðal fiskeldisþjóða í Evrópu með 8 þúsund tonn eða um 0,3% af heildarfiskeldi álfunnar eða á við 0,012% af fiskeldi Kínverja.

„Útbreiðsla sjúkdóma og umhverfisaðstæður, líkt og lágt hitastig sjávar, hefur reynst óþægur ljár í þúfu fiskeldis á Íslandi. Gögn Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) setja Ísland í 76. sæti yfir stærstu fiskeldisþjóðir heims og var fiskeldi á Ísland á árinu 2015 um 0,01% af fiskeldi á heimsvísu,“ segir í skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg.

Bjartsýni ríkir í fiskeldi

Einnig er tekið fram að ef horft er fram á veginn þá ríkir mikil bjartsýni í fiskeldi á Íslandi á næstu misserum. „Útgefin leyfi til framleiðslu fiskeldis eru mest á Vestfjörðum og Vesturlandi en þar eru leyfi fyrir 21.698 tonna ársframleiðslu. Hafa rekstrarleyfi til framleiðslu fiskeldis stækkað um 2.320 tonn frá árinu 2014. Í ljósi þess að fiskveiðar munu ekki aukast til muna á næstu árum þá eru mikil tækifæri fyrir Ísland fólgin í fiskeldi,“ er tekið fram.