Hagnaður Amazon á síðasta fjórðungi 2018 sló nýtt met þriðja fjórðunginn í röð, að því er kemur fram nýju uppgjöri sem kynnt var í gær og fjallað er um í Financial Times. Tekjur félagsins jukust um 20% á fjórðunginum upp í rúmar 72 milljarða dollara, eða jafngildi 8,7 þúsund milljarða króna, sem var umfram meðalspár greinenda. Engu að síður er þetta umtalsvert hægari vöxtur en á sama tímabili í fyrra þegar tekjur jukust um nær 40% en það þarf að leita aftur til fyrsta fjórðungs ársins 2015 til finna hægari vöxt tekna.

Brian Olsavsky fjármálastjóri Amazon sagði reikna með að félagið muni auka fjárfestingar sínar á þessu ári. „Að mörgu leiti var árið 2018 sem félagið naut ávaxta fjárfestinga í mannauði, innviðum og vöruhúsum sem ráðist var í á árunum 2016 og 2017. Við reiknum með að þessar fjárfestingar munu aukast á nýju ári miðað við 2018,“ hefur Financial Times eftir Olsavsky.

Fjárfestar hafa lengi umborið lítinn hagnað af rekstri Amazon á meðan vöxtur þess er jafnhraður og raun ber vitni. Þegar síðasta ár er skoðað í heild nam hagnaður félagsins 10 milljörðum dollara sem er vissulega há tala en ber að skoða í ljósi tekna sem námu 233 milljörðum dollara og jukust um 31% á árinu.