*

föstudagur, 19. janúar 2018
Erlent 14. apríl 2017 16:36

Hægir á verðbólgu í Bandaríkjunum

Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum lækkaði um 0,3% í mars. Kjarnavísitalan lækkaði um 0,1% milli mánaða í fyrsta skipti í sjö ár.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum lækkaði um 0,3% í mars. Vísitalan hefur ekki lækkað síðan í febrúar á síðasta ári. Verðbólga, eða tólf-mánaða taktur vísitölunnar, var 2,4% í mars. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bandaríska vinnumálaráðuneytisins.

Sé litið framhjá áhrifum matarvöru og orku í vísitölunni – svokölluð kjarnavísitala neysluverðs (e. core consumer price index) – lækkaði hún um 0,1% í mars og hefur hún ekki lækkað milli mánaða síðan í janúar árið 2010. Þetta er talsvert frávik frá væntingum markaðsaðila, sem höfðu spáð 0,2% hækkun í kjarnavísitölunni.

Verðhjöðnunin í mars skýrist af ódýrari vélknúnum ökutækjum, farsímaþjónustu og fatnaði. Orkuverð lækkaði um 3,2% í mars, en eldsneyti lækkaði um 6,2%. Matarvara hækkaði um 0,3%.

Verðhjöðnunin léttir nokkuð af verðbólguþrýstingnum í Bandaríkjunum sem skapast hefur undanfarin misseri vegna vaxandi eftirspurnar á heimsvísu og stöðugrar sölu, en markaðsaðilar höfðu spáð 2,6% verðbólgu í mars.

Ef verðbólga heldur áfram að vera undir væntingum má gera ráð fyrir því að minni líkur verði á vaxtahækkun í Bandaríkjunum í júní.