Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist 3,5% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi þessa árs en tölurnar voru birtar fyrir skömmu. Þó að hagvöxtur hefði hægt á sér úr 4,2% á öðrum ársfjórðungi var hann þó 0,2 prósentustigum hærri en hagfræðingar höfðu gert ráð fyrir að því er segir í frétt BBC .

Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði um 3% í Bandaríkjunum á árinu sem yrði mesti hagvöxtur í landinu í yfir áratug. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum er staða hagkerfis Bandaríkjanna sterk. Hagvöxtur mælist sterkur, atvinnuleysi hefur ekki verið jafn lágt í 50 ár auk þess sem laun hafa hækkað um 2,8% ársgrundvelli.