Frá og með deginum í dag er hægt að sækja um íbúðalán og gera annað sem því fylgir á vef Arion banka, með rafrænum skilríkum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bankanum.

„Þessi nýjung styttir afgreiðslutíma íbúðalána verulega og einfaldar allt umsóknarferlið," segir í tilkynningunni.

„Umsóknarferlið sjálft tekur mjög skamman tíma, en viðskiptavinir geta alltaf gert hlé á umsókninni og tekið upp þráðinn að nýju þegar þeim hentar.

Ný kynslóð greiðslumats á vef bankans

Stafræn umsókn um íbúðalán á vef Arion banka byggist á nýrri kynslóð greiðslumats sem bankinn kynnti til sögunnar í desember og tekur aðeins örfáar mínútur á vef bankans.

Nýja þjónustan sparar tíma og fyrirhöfn fyrir viðskiptavini þar sem þeir þurfa ekki lengur að safna saman launaseðlum, skattframtali eða öðrum gögnum heldur sækir bankinn allar lykilupplýsingar til Creditinfo og ríkisskattstjóra rafrænt.

Allt að 85% lánafyrirgreiðsla af fyrstu íbúð

Öll skilyrði varðandi greiðslumat og veitingu íbúðaláns eru óbreytt frá því sem áður var. Áfram er lánað fyrir allt að 80% af kaupverði en í tilfelli fyrstu kaupa er lánað allt að 85%."

Segir í fréttatilkynningunni að einnig sé hægt að bóka fund með fjármálaráðgjafa í útibúa bankans, panta símtal eða senda fyrirspurnir.

„Lántökugjald Arion banka er óbreytt, 49.900 kr. óháð lánsfjárhæð en ekkert lántökugjald er við fyrstu fasteignakaup," segir í tilkynningunni.

„Greiðslumatið er endurgjaldslaust en umsækjendur greiða þann kostnað sem til fellur vegna uppflettinga hjá þriðja aðila, m.a. í skuldastöðukerfi og ökutækjaskrá. Sá kostnaður er 3.200 kr. fyrir einstakling og 5.500 kr. fyrir hjón eða fólk í sambúð.“