*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 8. október 2018 15:27

Hægt að skipta rúblum út október

Hægt verður að selja Landsbankanum rúblur fyrir krónur út októbermánuð.

Ritstjórn
Landsbankinn mun skipta rúblum fyrir krónur fram til 1. nóvember næstkomandi.
Haraldur Guðjónsson

Hægt verður að skipta rússneskum rúblum yfir í íslenskar krónur hjá Landsbankanum til 1. nóvember næstkomandi, samkvæmt tilkynningu á vef bankans.

Alla jafna er hvorki hægt að kaupa né selja rússneskar rúblur á Íslandi, segir í tilkynningunni, en í tilefni heimsmeistaramótsins í fótbolta síðastliðið sumar setti Landsbankinn upp hraðbanka í Smáralind þar sem hægt var að kaupa rúblur tímabundið.

Sem fyrr segir mun bankinn kaupa rúblur af þeim sem þess óska út októbermánuð, svo landsmenn sem komu heim af mótinu í sumar með rúblur hafa því tæpar 4 vikur til að selja þær.

Gengi rúblunnar kemur fram á vef bankans, og kaupgengið, það gengi sem bankinn kaupir rúblur af viðskiptavinum á, stendur þegar þetta er skrifað í 1,71 krónu fyrir hverja rúblu.

Stikkorð: Landsbankinn Rúblur