Evrópski seðlabankinn hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0%. Einnig ákvað bankinn að halda örvunaraðgerðum sínum áfram - að öllu óbreyttu - en þó ýjaði Mario Draghi, Seðlabankastjóri Evrópi, að því að seðlabankinn fari brátt að hægja á magnbundinni íhlutun sinni, sem að bankinn hefur framkvæmt með umfangsmiklum skuldabréfakaupum. Greiningaraðilar búast að minnsta kosti við því bankinn fari að draga úr íhlutuninni á næstu mánuðum. Um málið er meðal annars fjallað í frétt BBC og hjá fréttaveitunni Bloomberg .

Einnig var greint frá því að hagvaxtarspá evrusvæðisins fyrir árið 2017 var 2,2% og var hún því hækkuð úr 1,9%. Ef að það raungerist þá verður hagvöxturinn sá mesti í 10 ár, eða frá því að efnahagskreppan reið yfir hinn vestræna heim eins flóðbylgja. Evrópski Seðlabankinn kemur til með að kaupa skuldabréf að virði 60 milljörðum evra í þessum mánuði. Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, sagði á fundi með blaðamönnum að bankinn myndi endurskoða framtíðarstefnu bankans síðar í haust.

Þrátt fyrir aukinn hagvöxt, þá var verðbólga lægri en gert var ráð fyrir. Verðbólga á evrusvæðinu var 1,5% í ágúst, og enn er nokkuð í land til þess að ná 2% verðbólgumarkmiði evrópska seðlabankans.

Flókið mál

Að mati greiningaraðila er það þó nokkuð flókið mál að átta sig nákvæmlega á því hvenær bankinn hyggst vinda ofan af magnbundinni íhlutun (aukið peningamagn í umferð). „Við teljum að evrópski seðlabankinn vilji senda frá sér þau skilaboð að dregið verði úr örvunaraðgerðum nú þegar efnahagsástandið batnar, en vilji ekki vinda alveg ofan af þeim,“ sagði hagfræðingur hjá Pantheon Macroeconomics í samtali við BBC.