Eins og popúlískum stjórnarherrum víða um heim er tamt hefur Nicolas Maduro forseti Venesúela ákveðið að hækka lágmarkslaun í landinu með handafli.

Er þetta þriðja hækkun lágmarkslauna í landinu í ár, en í þetta sinn nemur hækkunin 50%. Hækkunin mun þó ekki duga til að jafnast á við óðaverðbólguna sem stefna stjórnvalda hefur skapað í landinu. Er búist við því að verðbólgan geti náð 720% á þessu ári að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Með hækkuninni hafa lágmarkslaunin nú náð 97.531 bólivörum á mánuði, sem jafngildir 12,53 Bandaríkjadölum, eða tæpum 1.285 íslenskum krónum. Er þá miðað við óformlegt verðmat á gjaldmiðlinum, sem þó er talið réttara en opinber verðlagning hans að því er CNN greinir frá.

Heildartekjur um 3.300 krónur

Ásamt með matarmiðum sem ríkið gefur jafnframt út, ná heildartekjur almennings nú að jafnaði 250.531 bólivörum, sem jafngildir þá 32,19 dölum, eða um 3.300 krónum. Kom tilkynning forsetans í kjölfar viku mótmæla og uppnáms í höfuðborginni Caracas. Á þriðjudag stal hópur manna undir forystu lögreglumanns þyrlu og notaði hana til að varpa sprengjum og skjóta á höfuðstöðvar Hæstaréttar.

Íbúum landsins fannst málið sérlega skrýtið því herinn greip ekki til neinna aðgerða gegn þyrlunni, engann sakaði í árásinni, og telja ýmsir að um sé að ræða bragð af hálfu forsetans til að réttlæta harðari aðgerðir gegn mótmælendum.

Saksóknari gagnrýndi forsetann og gæti sætt ákæru

Vikan hefur einnig farið í baráttu við Ríkissaksóknara landsins, Luisa Ortega, sem klauf sig frá samstöðu stjórnarliða og sakaði Maduro um brot á mannréttindum. Í kjölfarið frysti hæstiréttur landsins, sem er algerlega á bandi ríkisstjórnarinnar, allar eigur saksóknarans og meinaði henni að fara úr landi því hún gæti átt yfir höfði sér réttarhöld.

Jafnframt voru þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem eru nú í meirihluta á þinginu, beittir ofbeldi af hálfu hermanna sem eru hallir undir forsetann.