Íslenska úrvalsvísitalan hækkaði um 2,01% í dag og stendur nú í 1.060,74 stigum og hefur þar með lækkað um 1,16% frá áramótum.

Síðustu daga hafa flest fyrirtækin á aðalmarkaði kauphallarinnar verið seld niður og hafa Hagar og Icelandair vegið þungt í úrvalsvísitölunni.

Eimskipafélagið hækkaði mest í dag og það um nær 3% í 155 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfanna stendur nú í 307 krónum á hlut.

Eik hækkaði næst mest og fæst hver hlutur nú á 10,4 krónur. Velta dagsins nam 195 milljónum króna.

Icelandair tók einnig kipp í dag og hækkaði gengi bréfanna um 2,58% í 398 milljón króna viðskiptum.

Sjóvá hækkaði þá um 2,57%, en Tryggingamiðstöðin um 1,8% á sama tíma og VÍS lækkaði um 0,2%

Reginn hækkaði um 2,37% í 129 milljón króna viðskiptum og Reitir um 1,33% í aðeins 1,17 milljón króna viðskiptum.

Síminn hækkaði einnig, eftir lækkanir síðustu daga og nam hækkunin 1,97% í 106,5 milljón króna viðskiptum. Fjarskipti hækkaði þá um 1,9% í tæplega 80 milljón króna viðskiptum.

HB Grandi stóð í stað, en engin viðskipti voru með bréfin.

Hagar hækkuðu um 1,6% og Skeljungur um 1%. Nýherji lækkaði þá um 0,22% og það í 34 milljón króna viðskiptum.