Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins var ráðinn fyrsti starfsmaður félagsins þegar Landsbankinn stofnaði félagið eftir bankahrunið. Félagið fór fljótt úr því að halda utan um yfirteknar eignir í að vera eitt stærsta fasteignafélag landsins, en meðal eigna Reginseru Smáralind og Egilshöll. Helgi segir mikið hafa gengið á frá því að félagið var stofnað árið 2009. Reginn hafi notið góðs af því að vera fyrsta fasteignafélagið sem skráð var í Kauphöllina. Þá fóru þrjú og hálft ár í að koma fataversluninni  H&M til landsins.

Það hefur ekki farið framhjá neinum hversu mikið íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað. Hefur sama þróun verið í verslunar- og atvinnuhúsnæði?

„Hún hefur verið í þessa átt, en auðvitað er ennþá offramboð á verslunarhúsnæði og skrifstofuhúsnæði. Þarna skipta staðsetningarnar öllu máli, það sem við höfum verið að gera er að selja frá okkur verslunarhúsnæði á jaðarsvæðunum. Verktakar hafa verið að kaupa það og því hefur verið umbreytt í íbúðalóðir. Þessi þróun mun halda áfram, við erum ennþá að selja svona einingar og viljum gera það. En í staðinn þjappast verslunarsvæðið á ákveðin svæði og þau styrkjast. Smáralindarsvæðið er að styrkjast, miðbærinn er búinn að styrkjast alveg brjálæðislega á skömmum tíma vegna ferðamannafjöldans, bæði hvað varðar hótel, veitingastaði og verslun. Við vorum á undan öðrum að kaupa eignir þar, árið 2013 keyptum við eignir á Hafnartorgi og það voru gríðarlega verðmæt viðskipti. Við fáum það afhent fullbúið á næsta ári og þetta fer í útleigu. Að mínu mati eru atvinnueignir enn undirverðlagðar og þær eiga eftir að styrkjast.“

Leiguverð tiltölulega lág

Heldurðu að aukin eftirspurn muni keyra þessar hækkanir?

„Hún mun aukast á ákveðnum svæðum og leiguverð mun hækka. Leiguverðin eru tiltölulega lág og atvinnuhúsnæðisverð er að meðaltali lágt þó það sé orðið mjög hátt í miðbænum og á ákveðnum svæðum. En t.d. á jaðarsvæðum og þéttingarsvæðum eins og hjá Smáralind og víðar er verð bara ágætlega hagstætt ennþá.

Margir hafa viljað kenna fasteignafélögum um hækkun íbúðaverðs. Ert þú sammála því?

„Ég er alls ekki sammála því. Á svona markaði stýrir endanotandinn svolítið verðinu og kannski sú staðreynd að það er skortur á ákveðnum einingum, sem er bagalegt. Skorturinn kemur til út af því að sveitarfélögin voru ekki undirbúin fyrir svona miklar breytingar, sem er bara afleiðing vanþekkingar á markaðnum. Það er m.a. út af því að menn eru ekki að samhæfa sig á þessu markaðssvæði sem höfuðborgarsvæðið er.“

Viðtalið við Helga má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.