Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hækkuðu við opnun markaða í dag, en fjárfestar bíða nú eftir stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka Evrópu og ræðu seðlabankastjóra, Mario Draghi.

Stoxx 600 vísitalan hækkaði um 1% við opnun markaða. Hækkunin náði yfir alla geira nema lánafyrirtæki. Mikil lækkun Deutsche Bank AG hafði mikil áhrif á þann geira, en hlutabréf í bankanum hafa lækkað um rúmlega 6% það sem af er degi í kjölfar ársreiknings sem var birtur eftir lokun markaða í gær og sýndi stjarnfræðilegt tap.

Áhyggjur af versnandi efnahag í Kína sendu Stoxx 600 vísitöluna á bjarnarsvæði í síðustu viku, en hlutabrefin hafa lækkað um 12% það sem af er ári.

Mario Draghi mun halda ræðu klukkan 13:30 í dag, 45 mínútum eftir ákvörðun bankans. Fjárfestar voru almennt óánægðir með ákvarðanir seðlabankans á síðasta fundi sem haldinn var í desember, en þá lækkaði Stoxx 600 vísitalan í lægsta gildi síðan í dsember 2002.

CAC 40 hefur hækkað um 0,31% það sem af er degi, FTSE 100 hefur hækkað um 0,27%, DAX hefur hækkað um 0,07%.