Norsk yfirvöld gerðu nýverið tímabundna breytingu á reglugerð um fasteignalán sem ætlað er að bregðast við auknum einkennum fasteignabólu þar í landi, sérstaklega í kringum höfuðborgina Osló. Þetta kemur fram í grein sem Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, skrifar á vef sjóðsins .

Á árinu 2016 nam meðalhækkun fasteignaverðs í Noregi 10,1% en í Osló og nærliggjandi bæjarfélögum var hún 21,7%. Í báðum tilvikum er um að ræða mestu árshækkun fasteignaverðs sem mælst hefur í Noregi.

Hækkun fasteignaverðs var enn meiri á Íslandi í fyrra eða um 15% að meðaltali á landinu öllu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Það er mat hagdeildar Íbúðalánasjóðs að full ástæða sé til að grípa til aðgerða hér á landi sambærilegum þeim og Norðmenn hafa gripið til er varðar hækkun eiginfjárkröfu við kaup heimila á íbúð númer tvö (eða þrjú o.s.frv.).

Slíkar aðgerðir myndu minnka eftirspurnarþrýsting á fasteignamarkaði og skapa aukið rými fyrir fyrstu kaupendur til þess að komast inn á markaðinn þar sem fjársterkir aðilar sem þegar eiga fasteign þyrftu að binda meira eigið fé til að eignast fleiri eignir.

Aðgerðir Norðmanna eru tímabundnar. Reglugerðin tók gildi 1. janúar 2017 og rennur út 30. júní 2018.