Á innan við ári voru laun bankastjóra Landsbankans hækkuð um 1,75 milljónir króna en þær nema nú 3,8 milljónum. Bankaráð ríkisbankans segir launin nú nær því að vera samkeppnishæf að því er Fréttablaðið greinir frá.

Á síðasta ári hækkaði bankaráð Landsbankans mánaðarlaun Lilju Bjarkar Einarsdóttur bankastjóra um 17%, eða 550 þúsund krónur. Lagðist sú upphæð ofan á launin sen námu 3.250.000 á mánuði fyrir, frá og með 1. apríl síðastliðnum. Inn í þessari tölu eru auk launa bifreiðahlunnindi.

Sú hækkun kom hins vegar einungis 10 mánuðum eftir að bankaráð hækkaði laun hennar um 1,2 milljónir á mánuði, en sú hækkun tók gildi 1. júlí 2017. Fyrir þessa hækkunarhrinu námu launin 2.089.000 krónum svo hækkunin nemur 82% á þessu tímabili.

Í svari við fyrirspurn blaðsins um málið segir að ákvörðunin byggi á starfskjarastefnu bankans, sem byggi á því að laun æðstu stjórnenda bankans og annarra starfsmanna, eigi að vera samkeppnishæf, en ekki leiðandi.

Áður höfðu laun bankastjóra Landsbankans, ein bankastjóra, verið ákvörðuð af kjararáði, og þar af leiðandi voru launin mun lægri en laun annarra stjórnenda í fjármálakerfinu að því er segir í svari bankaráðsins.

Þessi mikla hækkun virðist þó þvert á tilmæli fjármála- og efnahagsráðuneytisins til stjórna þegar laun forstjóra ríkisfyrirtækja voru færð undan ákvörðunarvaldi kjararáðs. Þetta er þó ekki einsdæmi, en þannig hafa laun forstjóra Isavia hækkað um 36% síðan þau urðu sjálfdæmi stjórna ríkisfyrirtækjanna. Laun forstjóra Íslandspóst hafa svo hækkað um 25% og Landsvirkjunar um 58%.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa verkaðlýðshreyfingarnar sömuleiðis farið fram á tugprósenta launahækkun lægstu launa, annars horfir til verkfalla , jafnvel strax í mars.