Greiningardeild Arion banka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% milli mánaða í águst sem er meiri hækkun en deildin gerði ráð fyrir í síðustu skammtímaspá sinni. Ástæðan er fyrst og fremst hækkun eldsneytisverðs. Helstu drifkraftar verðbólgunnar að mati greiningaraðila eru hækkun húsnæðisverðs, lok sumarútsala og hækkun eldsneytisverðs. Hægt er að lesa greininguna hér en ef hún gengur eftir þá mun ársverðbólga standa í 1,9%.

Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu í Bandaríkjadölum hefur hækkað um tæp 16% frá því í lok júní þegar verðið var sem lægst. Samhliða því hefur krónan veikst gagnvart Bandaríkjadal sem ýtir enn undir verðhækkunina. Greiningardeild Arion banka spáir því að að eldsneyti hækki í verði um tæp 5% í ágúst.

Greiningardeildin spáir því að verðlag hækki um 0,4% í september, 0,3% í október og um 0,1% í nóvember. Ef sú spá gengur eftir mun ársverðbólgan standa í 2,3% í nóvember.

Stefnir í jafnvægi á húsnæðismarkaði?

Greiningardeildin segir að gera má ráð fyrir að fasteignaverð haldi áfram að hækka eins og mikið hefur verið fjallað um - en á sama tíma hafa ýmsar vísbendingar komið fram sem bænda til þess að hægja fari á húsnæðisverðhækkunum.

„Við teljum að hækkun húsnæðisverðs muni hægja á sér næstu mánuði og teljum við vísitölu íbúðarverðs frá Þjóðskrá Íslands ásamt framboðsaukningu á sölusíðu fasteignasala undanfarna mánuði vera fyrstu áþreifanlegu merkin um betra jafnvægi á markaðinum. Það er vert að hafa í huga að nokkrir mánuðir líða jafnan frá því að breytingar á fasteignavefjum hafi áhrif á þinglýsta kaupsamninga og að líða aukalega nokkrir mánuðir þangað til að þessi áhrif birtast í mælingum Hagstofunnar.

Við spáum því að húsnæðisverð hækki um 0,8% í ágúst og að árstakturinn lækki úr 24,2% í 23,2%. Við spáum einnig að aðrir undirliðir húsnæðisliðarins muni hækka í ágúst og eru heildaráhrif húsnæðisliðarins til 0,20% hækkunar vísitölu neysluverðs,“ segir í greiningu Arion banka.