Hlutabréf í Símanum halda áfram að hækka en bréf félagsins hækkuðu mest í Kauphöllinni í dag eða um 2,32% í 310 milljón króna viðskiptum og endaði hvert bréf félagsins á að kosta 3.09 krónur. Mesta veltan var í bréfum Icelandair en þau hækkuðu um 1,38% í 1,5 milljarðs króna viðskiptum en bréf félagsins kosta nú 33 krónur.

Úrvalsvísitalan hækkaði jafnframt um 0,48% og endaði hún í 1794,22 stigum en hún hefur lækkað um 4,58% frá áramótum. Heildarvelta dagsins með hlutabréf var uppá um 4,4 milljarða króna en skuldabréfaveltan var um 20,5 milljarðar króna.

Mesta lækkunin var í hlutabréfum Reita fasteignafélags, en þau lækkuðu um 1,79% í 228 milljón króna viðskiptum og enduðu bréf félagsins á að kosta 82,40 krónur hvert um sig.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1% í dag í 18,416 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 2,541 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,4% í 15,875 milljarða viðskiptum.

Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa lækkaði um 0,3% í dag í 2 milljarða viðskiptum.