Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands stendur í 1912,62 stigum eftir að hafa lækkað um 1,27% í viðskiptum dagsins.

Svo virðist vera sem að gjaldþrot Wow air hafi litað markaði í dag, en gengi bréfa Icelandair rauk upp um 14,57% í 326 milljóna króna veltu í viðskiptum dagsins. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 3,3 milljörðum króna.

Gengi flestra annarra félaga á Aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkaði í viðskiptum dagsins. Mesta lækkunin varð hjá Eik fasteignafélagi, en bréf félagsins lækkuðu um 4,14% í 129 milljóna króna veltu.

Fyrstu viðskipti með hlutabréf Kviku banka fóru fram í dag, en Kvika varð þar með nítjánda félagið sem skráð er á Aðalmarkaðinn. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 0,60% á þessum fyrsta viðskiptadegi, í 95 milljóna króna veltu.

Mestu viðskiptin voru með bréf Haga, eða fyrir 359 milljónir króna.

Krónan veiktist um 0,73% gagnvart Evru á gjaldeyrismörkuðum í dag. Seðlabankinn greip inn í gengisveikingu krónunnar sem átti sér stað í morgun eftir að fréttir bárust af fyrrnefndu gjaldþroti Wow air, að því er Vísir greinir frá.