Ekki er stefnt að hækkun lífeyrisaldurs um áramótin í áföngum til sjötugs líkt og til stóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í síðustu viku. „Það voru mistök að hafa ákvæðið í fjárlagafrumvarpi og það mun ekki koma fram frumvarp um það að sinni,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu átti ellilífeyrisaldur að hækka úr 67 ára í 70 ára á 24 ára tímabili. Enn er þó stefnt að hækkun lífeyrisaldurs í 70 ár líkt og boðað var við breytingar á réttindakerfum í almannatryggingum haustið 2016, en ekki liggur fyrir hvenær það verður gert.

„Það verður að koma í ljós hvenær við getum stigið þau skref eins og boðað var við breytingar á almannatryggingakerfinu á sínum tíma,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .