Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% frá því í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Vísitala leiguverðs hefur þá hækkað um 89,6% síðan mælingar á henni hófust í janúar 2011. Til samanburðar hækkaði vísitala íbúðaverðs um 0,6% milli mánaða og hefur rúmlega tvöfaldast frá janúar 2011.

Árshækkun leiguverðs mælist nú 6,1% og hefur ekki verið svo lág síðan í júní 2016 þegar árshækkun mældist 5,4%. Meðalhækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur verið um 8,6% á ári frá því að mælingar hófust í janúar 2011. Staðan um þessar mundir er því örlítið undir því meðaltali.

Lægsta árshækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sem hefur mælst er 1,8% og var það í júlí 2015. Hæsta árshækkun mældist aftur á móti í maí 2017 en þá mældist hún 14,1%. Þrátt fyrir að árshækkun vísitölu leiguverðs sé með lægra móti í september þá mælist árshækkun vísitölunnar sjöunda mánuðinn í röð hærri en árshækkun vísitölu íbúðaverðs sem mælist nú 3,9%.