Hæstiréttur hefur sýknað Róbert Wessman, Árna Harðarson og Salt Investments af kröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar.

„Stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefndu og byggir kröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna athafna- eða athafnaleysis þeirra. Rekur stefnandi tjón sitt til þess er 4.000.000 evra, sem voru í vörslum Actavis Group hf., voru millifærðar í desember 2007 af reikningi félagsins inn á reikning stefnda Salt Investments ehf. Um var að ræða fjármuni sem ætlaðir voru til kaupa á vörubirgðum eins og fram hefur komið, upphaflega að fjárhæð 4.450.000 evrur og voru eign Mainsee.

Stefnandi telur að með þessari háttsemi hafi stefndu brotið gegn hagsmunum félagsins og stefnanda en hann hafi gengist í skipta ábyrgð (pro rata) fyrir skuldum félagsins eins og áður er rakið. Kveðst stefnandi persónulega hafa orðið fyrir fjárhagstjóni þar sem ábyrgðargreiðsla hans varð hærri en hún hefði orðið ef þessir fjármunir hefðu staðið til fullnustu kröfu Glitnis banka hf. á hendur Mainsee,“ segir meðal annars í dóm Hæstaréttar sem hægt er að lesa hér.

Hæstiréttur staðfestir þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í febrúar í fyrra. Hæstiréttur hefur jafnframt dæmt Björgólf til að greiða stefndu samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, segir í dómnum.