*

föstudagur, 22. september 2017
Innlent 22. júní 2012 14:01

Hætt við að fjármálaþjónusta flytjist úr landi

Greiningardeild Arion banka varar við aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. Þetta er þvert á mat FME.

Ritstjórn
Axel Jón Fjeldsted

Ekki er sjálfgefið að aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi skili sér í minni áhættu fyrir skattgreiðendur. Þvert á móti er hætt við að hann feli í sér að kostnaður aukist sem verði velt áfram á herðar lántakenda og fjármagnseigenda. Af þeim sökum er hætt við að íslensk stórfyrirtæki muni í auknum mæli leita erlendis eftir fjármálaþjónustu.

Þetta er mat greiningardeildar Arion banka. 

Það er þvert á það sem sem Guðmundur Örn Jónsson, sérfræðingur á sviði greiningar, skrifaði um í nýjasta tölublaði Fjármála, vefriti Fjármálaeftirlitsins. Guðmundur segir erfitt að benda á haldbær rök sem mæli gegn því að skila viðskiptabanka og fjárfestingabanka að og óséð hvort aðskilnaðurinn leiði til minni tekjumöguleika og minnkandi samkeppni. Þá bendir Guðmundur á að þverpólitískur stuðningur sé fyrir aðskilnaðinum. Af þeim sökum séu nokkrar líkur á því að þetta verði raunin þótt útfærslan sé enn óljóst. 

Aðskilnaður hefur neikvæð áhrif

 

Greiningardeild Arion banka er á annarri skoðun en Guðmundur og segir aðskilnaðinn geta m.a. leitt til þess að fjárfestingabankaþjónusta dragist saman og virkni fjármálamarkaðar minnki til skemmri og meðallangstíma. Eigi að gera bankastarfsemi öruggari og tryggja að almenningur verði ekki fyrir tjóni vegna starfsemi banka megi grípa til nokkurra aðgerða.

„Mikilvægast er að hækka lágmarkseiginfjárkröfur umfram Basel III lágmarkið. Þó þarf að hafa í huga að lágmarkskrafan hér á landi er nú þegar hærri. Þá er mikilvægt að horft sé í auknum mæli á gæði eiginfjár og lausafjárstöðuna og að settar séu reglur um hámarksvogun. Hækka má eiginfjárkröfur í tengslum við útlán til eignarhaldsfélaga og lækka leyfða hámarksáhættu banka gagnvart hver öðrum og ýmislegt fleira má týna til.“