Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður úr 20% í 22%, lægra tekjuskattsþrepið verður lækkað sem og tryggingargjald, en síðari tvær breytingarnar verða gerðar í tengslum við að liðka fyrir gerð kjarasamninga að því er Morgunblaðið greinir frá.

Jafnframt verður frítekjumark fjármagnstekna hækkað, en í dag miðast það við 125 þúsund krónur á ári. Einnig verður endurskoðaður skattgrunnurinn, og kæmi því til greina að breyta skattlagningunni úr nafnávöxtun í raunávöxtun.

Hætt er við hækkun skatta á ferðaþjónustuna líkt og gert var ráð fyrir fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar, sem átti að taka gildi nú um áramótin. Hins vegar verður skoðað að taka upp komugjald á farþega og svo verður gistináttagjaldið látið að fullu renna til sveitarfélaganna.

Ekki liggur þó fyrir í stjórnarsáttmála komandi ríkisstjórnar, sem tekur við á fimmtudag gangi allt eftir , nákvæmlega hvenær breytingarnar verða gerðar. Sáttmálinn er sagður langur, eða 20 blaðsíður, en flokksformennirnir sammæltust um að samningnum yrði ekki dreift til þingmanna flokkanna heldur var hann ýmist lesinn upp að hluta eða varpað á tjald.