Veigamikilli óvissu vegna framkvæmda við raflínur frá Kröfluvirkjun til iðnaðarsvæðisins á Bakka við Húsavík hefur verið eytt með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem féll 10. október síðastliðinn.

Því hefur ríkisstjórnin ákveðið að hætta við fyrirhugað frumvarp sem hefði heimilað lagningu raflínunnar þvert á fyrri bráðabirgðaúrskurð nefndarinnar.

Framkvæmdir stöðvaðar vegna úrskurðar

Málið snýst um að í tengslum við uppbyggingu iðnaðarsvæðisins hafi þrjú sveitarfélög á svæðinu gefið út fjögur framkvæmdaleyfi vegna lagningar raflínanna, Þeistareykjalínu 1, og Kröflulínu 4.

Þessi framkvæmdaleyfi voru kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrr á árinu og í júní og ágúst kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð til bráðabirgða þar sem framkvæmdir voru stöðvaðar á hluta leiðarinnar í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit.

Lagafrumvarp hefði gefið leyfi þvert á úrskurð

„Úrskurðir þessir settu framgang verkefnisins í uppnám og í ljósi þeirra ríku samfélagslegu og efnahagslegu hagsmuna sem í húfi eru var lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp sem heimilaði lagningu viðkomandi raflína með það að markmiði að eyða þeirri óvissu sem upp var komin,“ segir í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.

„Að höfðu samráði við sveitarfélögin sem hlut eiga að máli var á fundi ríkisstjórnar í morgun ákveðið að falla frá framangreindu stjórnarfrumvarpi. Í framhaldi af því munu viðkomandi sveitarfélög, á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í úrskurðinum frá 10. október 2016, fara yfir þau framkvæmdaleyfi sem gefin hafa verið út vegna framkvæmdarinnar og meta hvort tilefni sé til frekari viðbragða með það að markmiði að eyða enn frekar óvissu um framgang framkvæmdarinnar.“