Stjórnir Virðingar hf. og Kviku banka hf. hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Ákvörðun um að enda samrunaferlið, sem hófst formlega 28. nóvember síðastliðinn, er tekin að vel ígrunduðu máli og er það sameiginlegt álit stjórna beggja félaganna að fullreynt sé. Starfsfólk Virðingar og Kviku hefur lagt hart að sér við undirbúning samrunans og hefur sú vinna gengið afar vel þrátt fyrir þessa niðurstöðu,“ segir í tilkynningunni.

Þann 28. nóvember síðastliðinn undirrituðu stjórnir Kviku og Virðingar viljayfirlýsingu um undirbúning samruna félaganna undir nafni Kviku. Sameinað félag hefði verið með 220 milljarða króna í stýringu. Ef að samruninn hefði gengið í gegn hefðu hluthafar Kviku átt 70% hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30%.

Í kjölfarið var skrifað undir samkomulag um helstu skilmála fyrirhugaðs samruna félaganna tveggja með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikannanna, samþykki hluthafafunda og eftirlitsaðila. En allt kom fyrir ekki og ekkert verður af samrunanum hjá félögunum tveimur.