Þýska flugfélagið Lufthansa hefur ákveðið að hætta að fljúga til Venesúela frá 18. júní næstkomandi vegna efnahagsörðuleika landsins. Fyrirtækið hefur einnig sagt að gjaldeyrishöft í Venesúela hafi gert flugfélögum ómögulegt að skipta tekjum sínum í Bandaríkjadali og flytja þær úr landinu.

Spilling, efnahagsóstjórn og lækkun olíuverðs hafa haft mikil og alvarleg áhrif á hagkerfi Venesúela. Verðbólga nálgast nú 500% og er mikill skortur á nauðsynjavörum í landinu. BBC vitnar í yfirlýsingu Lufthansa þar sem segir að eftirspurn eftir flugferðum til Venesúela hafi minnkað verulega í fyrra og á fyrsta fjórðungi þessa árs. Markmiðið sé hins vegar að hefja flug þangað á ný innan tíðar.