Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, hefur áhyggjur af bólumyndun í ferðaþjónustu hér á landi. Hættan á bólumyndun sjáist einna best í uppbyggingu hótela, veitingastaða og öðru sem tengist þjónustu við ferðamanninn. Þetta kemur fram í viðtali sænska blaðsins Dagens Nyheter við Þorvald. Áskrifendur blaðsins geta nálgast það hér .

Þorvaldur segir fjölda krana lýsandi fyrir efnahagsástandið hverju sinni og það hvort að fjármálabóla sé að myndast. Segir hann að þegar byggingakranar verða of margir er það oftar en ekki merki um að fjármálakrísa sé handan við hornið

„Við erum ekki með eins marga byggingakrana í dag eins og 2007 – en þeir eru nokkuð langir!“ segir Þorvaldur.

Hann bætir því við að „bankakúltúrinn“ á Íslandi hafi lítið breyst, enda hafi ekki einn einasti bankamaður beðist afsökunar eða viðurkennt misgjörðir sínar eftir hrunið.

Neyddumst til að láta bankana falla

Í viðtalinu fjallar Þorvaldur aðallega um eftirmála hrunsins hér á landi, en í viðtalinu kemur fram að Þorvaldur sé einn þeirra fáu sem vöruðu við hruni árið 2008. Hann segir Íslendinga hafa leyst nokkuð vel úr hruninu, einkum vegna aðstoðar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum. Jafnframt telur hann að fall bankanna hafi ekki verið spurning um pólitíska framsýni og að „íslenska leiðin“ – að láta banka fara á hausinn og sækja bankamenn til saka – virki ekki endilega annars staðar.

„Ef holan hefði ekki verið eins djúp og hún var, þá tel ég að Ísland hefði valið sömu leið og Írland, það er að láta skattgreiðendur borga brúsann,“ segir Þorvaldur. Hann segir að lönd eins og Grikkland geti ekki farið „íslensku leiðina“, þar sem almenningur óttast oftar en ekki að gera eitthvað sem er bankamönnum ekki þóknanlegt.

Ólígarkar stjórna Íslandi

Þorvaldur fjallar einnig nokkuð um stjórnmál á Íslandi í viðtalinu og segir hann þau einkennast af spillingu. Eins og kunnugt er var Þorvaldur í þjóðkjörnu og þingskipuðu stjórnlagaþingi 25 einstaklinga sem lögðu fram tillögur að nýrri stjórnarskrá. Um tveir þriðju þjóðarinnar kaus með nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Þorvaldur segir stjórnarskránna þó hafa verið lagða til hliðar af ótta þingmanna við að missa völd. Þá segir hann „sömu tegund“ af stjórnmálamanni hafa tekið við af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í forsætisráðherrastól landsins í kjölfar skandalsins með Panamaskjölin, en alls voru þrír ráðherrar í þáverandi ríkisstjórn í skjölunum.

Þorvaldur telur þetta allt vera til marks um að Íslandi sé stjórnað af „klíku“ eða „ólígörkum“.