*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 19. febrúar 2018 12:02

Hætta miðnæturflugi til Evrópu

„Við erum með lægri sætanýtingu á þeim tíma, lægri meðalfargjöld og kostnaður er meiri. Við höfum ekki séð að þetta byggist nógu sterkt upp.“

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Undanfarin ár hefur Icelandair lagt rækt við að nýta flugtíma á Keflavíkurflugvelli til Evrópu þar sem lagt er af stað frá Íslandi um miðnætti og komið til baka undir morgunfréttir. „Síðan ertu með Ameríkuflug hálftíu-tíu. Þetta var okkar leið til að búa til tengitíma á öðrum tíma dags en á okkar háannatíma til að létta á umferðinni í Keflavík. Við höfum stækkað á undanförnum árum en niðurstaða okkar núna, sem ég vil tengja við hvernig við höfum breytt ákvarðanatöku innan félagsins, varð sú að skera hann út. Við höfum verið að stytta og þrengja þennan tíma en núna ákváðum við að taka hann alveg út. Við erum með lægri sætanýtingu á þeim tíma, lægri meðalfargjöld og kostnaður er meiri. Við höfum ekki séð að þetta byggist nógu sterkt upp. Tengimöguleikar á þessum tíma eru um 30 á móti um 500 á hinum tímanum okkar. Ákvörðunin var því að taka þetta út,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

Meira talað um gjaldtökumöguleika en framtíðina

Afar ólíklegt verður að telja að ferðamenn hætti að sækja Ísland heim. Einhverjar sveiflur gætu orðið eins og greiningardeild Arion banka hefur til að mynda bent á en til þess að ferðamenn hætti alfarið að koma til einhvers lands þarf yfirleitt mikið að gerast, til að mynda borgarastyrjöld eða valdataka einræðisherra. Björgólfur hefur því litlar áhyggjur af hvarfi ferðamanna en telur nokkuð skorta á framtíðarsýn stjórnvalda í þessum efnum. „Það er meira talað um gjaldtökumöguleika heldur en hvernig við ætlum að sjá ferðamannalandið Ísland fyrir okkur. Heilt yfir hefur ferðaþjónustan styrkt efnahagslíf á Íslandi gríðarlega. Það er reyndar vinna í gangi hjá ferðamálaráðherra og stjórnstöð ferðamála í þessa veru. Það er þó jákvætt að fólk er að velta þessu fyrir sér. Þótt fyrr hefði verið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.