Íslandsbanki hefur safnað svörum lesenda morgunkorns greiningardeildar bankans við nokkrum spurningum um hvar þeir telja íslenska hagkerfið á vegi statt í hagsveiflunni. Er það liður í undirbúningsvinnu fyrir þjóðhagsspá Greiningar bankans, en um er að ræða nýjung í þeirri vinnu. Hægt er að lesa niðurstöðurnar ítarlegar hér .

Af svörunum má dæma að þó flestir sjái fyrir sér svipaðan gang í efnahagslífinu næstu 12 mánuðum og sé nú, sjá fleiri fyrir sér að staðan versni heldur en að hún muni batna. Þau mál sem flestir telja þó geta skapað mestu hættuna fyrir efnahagslífið eru þróun launa og ferðaþjónustu, gengisbreytingar og þróun innlendra stjórnmála, en rétt um eða yfir helmingur allra merktu við þessi atriði, en þar var hægt að velja þrennt.

Geta gert landsmönnum skráveifu

Greiningardeildin bendir á að auðvitað sé þróun gengis og ferðaþjónustunnar samtvinnuð. „Hitt má samt líka benda á að seinni tveir liðirnir gætu samanlagt gert landsmönnum töluverða skráveifu á komandi tíð, það er ef saman fer lausatök og skortur á langtímahugsun í ríkisrekstrinum annars vegar, og átök og óróleiki á vinnumarkaði hins vegar,“ segir í umfjöllun Íslandsbanka.

„Má því segja að hættan felist í klassísku ytra áfalli annars vegar, og eins konar sjálfskaparvíti hins vegar.“ Telja einungis 9,7% að staða íslensk efnahagslífs muni vænkast, en 31,8% að hún muni versna. Afgangurinn, eða 58,5% telja að staðan muni verða svipuð.

Til að átta sig á stöðunni sem slíkri sést að svipað hlutfall, eða 61,2% telja aðstæðurnar nú vera nokkuð góðar og 21,5% mjög góðar. Hlutlausir eru 15,1%, en einungis 1,7% telja aðstæðurnar nokkuð slæmar og 0,5% mjög slæmar.

Svartsýnir fleiri en bjartsýnir

Spurðir út í nýlegar spár sem gera ráð fyrir 3,3 til 3,6% hagvexti á næsta ári segja 8,8% svarenda að hagvöxturinn verði meiri, en 43,5% að hann verði minni. Tæplega helmingur, eða 47,7% telja svo að hann verði í samræmi við nýlegar spár.

Varðandi væntingar til stöðu eigin fyrirtækis telja 18,0% að enn sé rými fyrir að hagur þess muni vænkast, en 12,8% að hann muni versna. Hins vegar telja um 60,9% að staða fyrirtækisins sem þeir starfa við verði svipuð.

Um tveir þriðju lesenda greiningardeildarinnar eru síðan sammála henni um að einkaneyslan muni drífa hagvöxtinn áfram næstu 12 mánuðina, eða 67,9%. Einungis fjórðungur nefnir ferðaþjónustuna sem hefur verið helsti drifkraftur vaxtar hérlendis á síðustu misserum, en einungis 4,52% nefna fjárfestingar og 2,9% vöruútflutning.

Flestir búast við gengisveikingu

Mikill meirihluti býst jafnframt við að gengi krónunnar muni veikjast á næstu 12 mánuðum, en 61,28% telja að gengið muni veikjast lítillega, meðan 6,65% telja það muni veikjast verulega. Hverfandi hópur telur gengið muni styrkjast verulega, eð 13,54% hafa trú á lítilli styrkingu.

Langflestir telja svo að stýrivextir verði áfram svipaðir, eða 60,9%, meðan 15,6% telja að þeir muni lækka. Fleiri telja hins vegar að þeir muni hækka á ný eða 23,5%.