„Ég deili þeim áhyggjum sem háttivirtur þingmaður lýsti,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í óundurbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, spurði hann hvort gjaldtaka á ferðamannastöðum hefði verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Tilefni er meðal annars gjaldttaka landeigenda við Geysi. „Ég tel mikilvægt að koma þessum málum í fast form,“ svaraði Sigmundur Davíð.

Forsætisráðherra staðfesti að málið hefði verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar. „En málið er á forræði hæstvirts iðnaðarráherra og ráðherran hefur gert grein fyrir þeirri vinnu sem þar stendur yfir,“ sagði Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davíð sagði mikilvægt að gjaldtaka myndi nýtast til þess að byggja upp ferðaþjónustu og gera aðgengi að ferðamannastöðum betra og öruggara og til þess fallið að taka á móti sífellt vaxandi fjölda ferðamanna. Hann sagði að það ástand sem nú sæist glitta í með gjaldtöku á ólíkum stöðum eftir ólíkum leiðum væri ekki góð leið.