Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir afskaplega bagalegt að smásöluvísitala Rannsóknarseturs verslunarinnar sé að falla niður.

„Það verður til dæmis mjög slæmt að sjá ekki hver hlutdeild H&M verður á markaðnum þegar fyrsta verslunin verður opnuð í Smáralind í lok ágúst,“ segir Andrés í samtali við Morgunblaðið.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hafa Hagar ákveðið að vera ekki lengur með í vísitölunni og er því grundvöllur vísitölunnar þar með brostinn. Andrés segir deginum ljósara að verslun á Íslandi sé að breytast með aukinni netverslun sem hafi tekið stökk.

„Það er óumdeilt að ríflega 50% af fatainnkaupum eru farin úr landi, með beinum eða óbeinum hætti,“ segir Andrés sem segir mikilvægt að Samkeppniseftirlitið afli sér upplýsinga um breytta stöðu á markaðnum með tilkomu Costco og H&M.

„Ef ákvörðun Samkeppniseftirlitsins varðandi Haga og Lyfju er upptaktur að öðrum ákvörðunum eftirlitsins á næstu mánuðum er eftirlitið ekki búið að taka inn í dæmið markaðshlutdeild þessara stóru nýju aðila á markaðnum.

Það er nauðsynlegt að eftirlitið skoði sem allra fyrst hvaða hlutdeild hann hefur á einstökum mörkuðum. Það er að mínu mati óhjákvæmilegt. Hvenær mun Costco ná tiltekinni stöðu á tilteknum markaði og hvernig mun Samkeppniseftirlitið bregðast við því?“