Larry Fink, forstjóri BlackRock segir að viðskiptavinir eignarstýringarrisans hafi engan áhuga á rafmyntum. Þetta sagði Fink í viðtali við Bloomberg fyrr í dag. „Ég hef enga trú á því að viðskiptavinir okkar séu að sækjast eftir því að fjárfesta í rafmyntum. Ég hef ekki heyrt einn viðskiptavin segja að hann verði að fjárfesta í þessum myntum.“

Ef marka má orð Fink þýða ummæli hans að enginn hluti þeirra 6.300 milljarða dollara sem BlackRock er með í stýringu hefur verið fjárfest í Bitcoin, Ethereum eða annars konar rafmyntum. Þá benda orð hans til þess að eignarstýringarfyrirtæki hafi töluverðar efasemdir um myntirnar sem eignaflokk. Samkvæmt Fink hefur BlackRock einungis fylgst með þróun myntanna til að geta lagt mat á hvort að þær verði samþykktar sem jafngildi hefðbundna gjaldmiðla.

Ólíkt bandarískum fjárfestingabönkum á borð við Goldman Sachs og JP Morgan Chase hefur BlackRock ekki sett á laggirnar deild sem getur átt viðskipti með rafmyntir, hvort sem um er að ræða myntirnar sjálfar eða framvirka samninga með Bitcoin. Aðspurður hvort það sé þörf á því að fyrirtækið þyrfti að undirbúa sig undir að viðskiptavinir myndu vilja eiga viðskipti með myntirnar í framtíðinni sagði Fink:„Á þessum tímapunkti, nei“

Í gær greindi Financial News frá því að BlackRock hafði sett saman teymi af sérfræðingum til þess að skoða leiðir til að nýta kosti rafmynta eða bjálkakeðjutækninnar (e. blockchain) sem myntirnar byggja á. Þó að Fink hafi gefið það frá sér að áhugi BlackRock á rafmyntum sé takmarkaður sagðist hann þó vera „mjög spenntur“ fyrir bjálkakeðjutækninni.

Fyrr í dag var greint frá því að BlackRock hefði hagnast um 1,07 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Var afkoma fyrirtækisins betri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir.

Gengi Bitcoin stendur nú í 6.627 dollurm. Hefur gengi rafmyntarinnar lækkað um rúmlega 50% það sem af er þessu ári.