Íslensk-hollenska hátæknifyrirtækið Mint Solutions hefur fengið 280 milljóna króna styrk frá Horizon 2020, sem er nýsköpunarsjóður Evrópusambandsins. Fyrirtækið mun nota þennan styrk og 70 milljónir króna til viðbótar, eða samtals 350 milljónir króna,  í innleiðingu lyfjaöryggiskerfisins MedEye á sjúkrahúsum í Bretlandi og hjúkrunar- og dvalarheimilum í Belgíu og Hollandi. Féð verður meðal annars notað til að rannsaka áhrif MedEye á lyfjaöryggi.

Gauti Þór Reynisson, framkvæmdastjóri Mint Solutions, segir að meðal helstu samstarfsaðila fyrirtækisins í þessu 350 milljóna króna verkefni séu Newcastle Upon Tyne Hospitals Foundation, sem rekur sjúkrahús og fjölbreytta heilbrigðisþjónustu í norðausturhluta Englands, Durham University og aðilar í Belgíu og Hollandi. Hann segir að Mint Solutions og samstarfsaðilarnir muni saman leggja 70 milljónir í verkefnið. Þorri fjármagnsins kemur frá sjóði Evrópusambandsins, eins og áður sagði.

Mint Solutions var stofnað á Íslandi árið 2010 af þeim Gauta Þór Reynissyni, Ívari Helgasyni og Maríu Rúnarsdóttur og hefur síðan þá unnið að þróun lyfjaöryggiskerfisins MedEye. Kerfið er hannað fyrir sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir með það markmiði koma í veg fyrir rangar lyfjagjafir. Hjúkrunarfræðingar skanna öll lyf sjúklinga, rétt áður en þau eru gefin, og tryggja þannig að lyfjagjöfin sé í samræmi við lyfseðil og fyrirmæli lækna.

Styrkurinn frá Evrópusambandinu þýðir að á síðasta hálfa ári hefur Mint Solutions fengið samtal 930 milljónir í styrk og nýtt hutafé því síðasta haust var tilkynnt um 650 milljóna króna fjárfestingu. Það fjármagn kom frá hópi fjárfesta undir forystu BOM Capital í Hollandi og tveggja núverandi hluthafa, LSP og Seventure Partners, ásamt Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og íslenskum einkafjárfestum.

Horfa til Bandaríkjanna

Gauti  segir að styrkurinn frá Evrópusambandinu og samstarfið við þessa aðila feli sér mikilvæg tækifæri.

„Fyrir fyrirtæki eins og okkar, sem er að fara inn á heilbrigðismarkað þar sem hlutir ganga yfirleitt hægt fyrir sig, þarf að brúa stórt bil með fjármögnun og fjárfestum. Þessi styrkur hjálpar okkur því að fjármagna verkefni, sem munu síðan koma til með að borga sig tilbaka seinna.

Þessi styrkveiting er líka ákveðin viðurkenning fyrir okkur því Evrópusambandið veitir ekki styrk til allra sem sækja um. Evrópusambandið hefur líka séð niðurstöður okkar frá Hollandi og það hefur væntanlega hjálpað til. Nú þegar hefur MedEye komið í veg fyrir þúsundir rangra lyfjagjafa þar í landi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .