Wow air flutti 111% fleiri farþega í ágúst í ár heldur en í fyrra, eða 226.924, til og frá landinu.

Sætanýting haldist þrátt fyrir aukið sætaframboð

Sætanýting Wow air hefur haldist í 95% á milli áranna ef miðað er við ágústmánuð á sama tíma og sætaframboð jókst um 112%. Fjölgaði framboðnum sætiskílómetrum um 152% frá því á sama tíma í fyrra.

Wow air hefur flutt um milljón farþega það sem af er árinu, sem er 110% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.

Fjölgun bandarískra ferðamanna í kjölfar Bandaríkjaflugs

Meðalvöxtur í fjölda bandarískra ferðamanna til Íslands hefur verið 67% á milli ára síðan Wow air hóf flug til Bandaríkjanna fyrir 17 mánuðum síðan. Á jafnlöngum tíma þar á undan nam meðalvöxturinn 31% á milli ára.

„Þetta sýnir að aukin samkeppni skilar sér í lægri fargjöldum og aukingu á ferðamönnum til landsins,“ segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Jafnframt er þar haft eftir Skúla Mogensen eiganda og forstjóra þess:

„Það er frábært að sjá hvað okkur hefur tekist vel til í sumar ekki síst á nýjum áfangastöðum eins og Los Angelses og San Francisco.  Það hefur gengið vonum framar að fylla nýju 350 sæta Airbus breiðþoturnar okkar og erum við þakklát fyrir þær góðu móttökur sem við höfum fengið.“