Á árunum 2005-2014 hefur lögreglan beitt heimild í útlendingalögum sem gerir henni kleift að leggja hald á fjármuni eða flugmiða af útlendingum sem sendir eru úr landi í heil 26 skipti. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Féð sem lagt var hald á nemur um 2,5 milljónum króna, en það hefur runnið í ríkissjóð. Haldlagt fé er til að mynda gjaldeyrir eða lausafé, sem útlendingur hefur í fórum sínum þegar lögregla hefur afskipti af honum, eða þegar málsmeðferð hefst.

Heimildin er falin í 56. grein útlendingalaga, en þar segir að útlendingur sem færður er úr landi samkvæmt lögum skuli greiða kostnað af brottför sinni.

Þar segir einnig að heimildin gildi ekki í þeim tilvikum þegar hælisleitandi er fluttur til annars ríkis sem hefur í samráði við íslensk yfirvöld samið um eða ákveðið að taka við hælisleitandanum.