Útistandandi lán til erlendra viðskiptavina stóru íslensku viðskiptabankanna námu rúmlega 120 milljörðum króna um síðustu áramót. Um er að ræða um 6% af öllum lánum þeirra og um 3% af heildareignum bankakerfisins. Lán til erlendra viðskiptavina stóru bankanna þriggja jukust um 36% á tímabilinu 2012-2015. Það er talsvert umfram almennan útlánavöxt þeirra, sem nam 20 prósentum á tímabilinu.

Bankar sem nú eru í ríkiseigu, það er að segja Landsbankinn og Íslandsbanki, áttu um 85 milljarða undir vegna lána til erlendra viðskiptavina í lok síðasta árs. Lán þessara banka til erlendra viðskiptavina jukust á síðasta ári á meðan þau drógust lítillega saman hjá Arion banka.

Stefna að hóflegum vexti

Útlán Íslandsbanka til einstaklinga erlendis námu um 8 milljörðum um síðustu áramót. Það eru að mestu leyti lán til einstaklinga sem bjuggu á Íslandi en fluttu síðan til útlanda. Útlán til annarra aðila, þar á meðal fyrirtækja, námu um 23 milljörðum, mest í Kanada, Noregi og Bandaríkjunum. Lán í þessum flokki jukust um 66% á árinu 2015. Á tímabilinu 2013-2015 sjöfölduðust þau.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .