Lykilmenn í Icelandair vildu ekki að félagið keypti hagkvæmari flugvélar frá Airbus því félagið væri Boeing flugfélag og „ætli sér að vera það áfram," að því er sagt er frá í Morgunblaðinu í dag.

Sérfræðingar sem blaðið ræddi við segja að ný vél frá Airbus, A321 NEO-LR sem kemur á markaðinn eftir tvö ár væri fullkomin fyrir félagið. „[E]n í stað þess að kaupa hana er hún hundsuð," segir heimildarmaðurinn.

Kaupa 16 nýjar vélar frá Boeing

Einnig er væntanleg á markaðinn vél af gerðinni Boeing 737MAX en Icelandair hefur gengið frá kaupum á 16 vélum af þeirri gerð og fær það fyrstu vélarnar afhentar árið 2018.

Þær vélar verði notaðar við hlið „úreltar" Boeing 757 véla félagsins sem sérfræðingar segja að félagið hafi komist upp með að nota vegna samkeppnisforskots sem liggi í legu landsins á miðju Atlantshafinu.

Fimmtungslækkun eldsneytiskostnaðar

Nýju vélarnar munu lækka eldsneytiskostnaðinn um meira en 20% á sæti miðað við 757 vélarnar sem sagðar eru komnar til ára sinna.

Er talið að hluti af þeim 30 milljón dala sparnaði sem félagið hyggist ná fram í kjölfar afkomuviðvörunar félagsins sem birtist í síðustu viku eigi að ná með lægri rekstrarkostnaði MAX vélanna.

Sérfræðingarnir fullyrða að með því að veðja á MAX vélarnar frá Boeing sé félagið að veðja á rangan hest því enginn arftaki sé í sjónmáli sem geti komið alfarið í stað gömlu 757 vélanna frá Boeing.