Viðskiptaráð tekur undir markmið um að auðvelda fyrstu kaup en segir að sú leið sem ríkisstjórnin hyggist fara muni ekki skila árangri. Segja þeir árangursríkari leiðir standi til boða og styðja því ekki að frumvarpið nái fram að ganga í núverandi mynd.

Ráðstöfun séreignasparnaðar í húsnæði

Kemur þetta fram í umsókn ráðsins um frumvarp ríkisstjórnarinnar um að styðja einstaklinga sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Felst það í því að fyrstu kaupendur geti ráðstafað séreignasparnaði sínum skattfrjálst til þess.

Auk þess verður almenn heimild til að ráðstafa séreignasparnaði inn á fasteignalán framlengd um tvö ár.

Mörg, dýr kerfi sem núllast út

Bendir ráðið á þrenns konar vandamál við núverandi stuðningskerfi við kaupin, en stjórnvöld starfrækja í dag 6 mismunandi slík kerfi. Í fyrsta lagi að þau eru flest almenn, sem leiðir til þess að hluti stuðningsins verði að engu með því að leiða til hærra leigu- og fasteignaverðs.

Fjöldi kerfanna torveldar svo heildstæða yfirsýn yfir kostnað og árangur af kerfunum og í þriðja lagi hve kostnaðurinn er hár af aðgerðunum. Nema opinber úgjöld vegna kerfanna um 46 milljörðum króna á ári samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs. Sú skattheimta sem fylgir þessum mikla kostnaði hefur markverð neikvæð áhrif á kaupmátt einstakling á húsnæðismarkaði.

Stuðningur of einhliða við eftirspurn

Þess utan er núverandi stuðningur einhliða á eftirspurnarhliðinni, en ekki á framboðshliðinni. Að vísu segja þeir að núverandi ríkisstjórn hafi ráðist á markverðar aðgerðir til að styðja við aukið framboð á síðustu árum, þar beri hæst einföldun byggingarreglugerðar og lækkun fjármagnstekjuskatts á leigutekjur.

Viðskiptaráð bendir þó á að langmesti hluti tíma og fjármuna stjórnvalda í stuðningskerfi á eftirspurnarhliðinni, og nú eigi að bæta við sjöunda kerfinu á þeirri hlið.

Frelsi til ráðstöfunar sparnaðar jákvæður

Telur ráðið jákvætt að veita einstaklingum frelsi um að ákveða hvernig þeir ráðstafi séreignasparnaði sínum, en gera athugasemd við að með þessu sé verið að hvetja til að verja meiri fjármunum í húsnæði en þeir myndu gera ef allar sparnaðarleiðir væru meðhöndlaðar með sama hætti í skattalegu tilliti.

Þetta leiði til ofneyslu og offjárfestingar í húsnæði og stjórnvöld eigi ekki að stýra ráðstöfun á fjármunum einstaklinga með sértækum ívilnunum.

Vilja færri kerfi og afmarkaðri

Ráðið leggur til að í stað þessa frumvarps ráðist stjórnvöld í þrenns konar aðgerðir. Í fyrsta lagi úttekt á orsökum lakrar launaþróunar yngri aldurshópa í samanburði við aðra hópa. Endurbætur á núverandi húsnæðisstuðningi með fækkun kerfa, afmörkun við þá tekjulægstu, lækkun kostnaðar og minni neyslustýringu að leiðarljósi.

Í þriðja lagi kortlagningu leiða til að auka framboð húsnæðis, til dæmis með skattalækkunum og einföldun regluverks.