*

miðvikudagur, 14. nóvember 2018
Innlent 17. júlí 2017 17:01

Hafna samruna Haga og Lyfju

„Niðurstaðan er vonbrigði og mun félagið taka hana til sérstakrar skoðunar næstu daga,“ segir í tilkynningu frá Högum.

Ritstjórn
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið hefur í dag hafnað samruna Haga hf. og Lyfju hf. en þann 17. nóvember 2016 tilkynntu Hagar um kaup á öllu hlutafé í Lyfju. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirvörum vegna niðurstöðu áreiðanleikakönnunar var aflétt í apríl sl., en Samkeppniseftirlitið hefur nú með úrskurði hafnað samrunanum. Þetta kemur fram í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar.

„Niðurstaðan er vonbrigði og mun félagið taka hana til sérstakrar skoðunar næstu daga. Þá ber að árétta að Hagar höfðu ekki tekið við rekstri Lyfju og mun ákvörðunin því ekki hafa áhrif á áður birt reikningsskil félagsins,“ segir í tilkynningunni. 

Hagar höfðu í nóvember síðastliðnum undirritað kaupsamning við Lindahvol ehf. um kaup á öllum hlutum í Lyfju hf. Heildarverðmæti Lyfju hf. við gerð kaupssamningsins nam 6,7 milljörðum króna.