Eins og kom fram í gær , vill Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hafa næsta kjörtímabil styttra en þrjú og hálft ár. Í Fréttatímanum er rætt við formenn þeirra flokka sem hafa rætt við Pírata. Þau taka ekki í mál að næsta kjörtímabil verði styttra.

Haft er eftir Oddnýju G. Harðardóttur, formanni Samfylkingarinnar, að hún telji það ekki skynsamlegt að hafa kjörtímabilið styttra og kannast ekki við þetta skilyrði sem rætt er um. Samfylkingin vill ekki setja nein tímamörk á næsta kjörtímabil að sögn Oddnýjar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir enga ástæðu til að stytta kjörtímabilið og leggur áherslu á að Vinstri græn hafa alltaf talað skýrt um það í viðtali við Fréttatímann.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segist einnig efins um að flokkurinn fallist á stutt kjörtímabil vegna eins máls. Hann leggur áherslu á að verkefnin séu mörg og í því samhengi nefnir  hann umbætur í heilbrigðiskerfinu og endurskoðun á umhverfi sameiginlegra auðlinda.

Líklegt er að viðræður flokkanna haldi áfram í dag eða á morgun og sendi frá sér yfirlýsingu um samstarf í kjölfarið. Samkvæmt heimildum Fréttatímans, þá eru raddir innan Samfylkingar og Bjartrar framtíðar um að hugmyndir um samstarfið og styttra kjörtímabil hafi ekki skilað þeim stuðningi.