Isavia segir að úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fari fram eftir samræmdum EES reglum og að fjöldi afgreiðslutíma sé ákvarðaður út frá afkastagetu flugvallarins. Í tilkynningu frá félaginu segi að Isavia hafi það markmið að auka tíðni, og þar með samkeppni, í áætlunarflugi til og frá landinu.

Fyrr í dag sendi Samkeppniseftirlitið frá sér tilmæli til innanríkisráðherra og Samgöngustofu að grípa til aðgerða vegna samkeppnishindrana sem tengjast úthlutun afgreiðslutíma fyrir flugfélög á Keflavíkurflugvelli. Segir í frétt á vefsíðu eftirlitsins að Icelandair hafi mikið samkeppnisforskot þar sem félaginu hafi verið úthlutað nær öllum afgreiðslutímum á álagstímum.

Í tilkynningu Isavia segir að áðurnefndar EES reglur, sem úthlutun tímanna byggi á, geri ráð fyrir þí að úthlutunin sé á höndum sjálfstæðs samræmingarstjóra. „Yfirvöld eða flugvallarrekendur viðkomandi landa mega ekki hafa afskipti af ákvörðunum hans varðandi úthlutunina og mega ekki breyta þeim,“ segir í tilkynningunni.

„Til þess að ýta undir fjölgun flugfélaga býður Isavia nýjum flugfélögum tímabundinn afslátt af lendingargjöldum samkvæmt sérstöku hvatakerfi. Starfsmenn félagsins hafa undanfarin ár fundað með fjölmörgum flugfélögum til að kynna þjónustu flugvallarins og Ísland sem áfangastað. Markaðsstarfs félagsins hefur m.a. skilað sér með þeim hætti að nú halda um 20 flugfélög uppi áætlunarflugi til Íslands yfir sumarmánuðina og sjö til átta flugfélög allt árið. Til samanburðar voru fyrir áratug einungis sjö flugfélög með tímabundna áætlun og aðeins tvö með áætlun allt árið. Fullyrðingar um að Isavia stuðli ekki að samkeppni í áætlunarflugi eiga ekki því við rök að styðjast.“