Hafsteinn Gunnar Hauksson hagfræðingur hefur hlotið Chevening-styrk til framhaldsnáms á komandi vetri við London Scool of Economics and Political Science. Styrkveitingin fór fram við hátíðlega athöfn í bústað breska sendiherrans á Íslandi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sem sjálfur er fyrrverandi Chevening-styrkhafi, tók þátt í að afhenda styrkinn og notaði tækifærið til að bera lof á breskt menntakerfi og lýsti ánægju sinni með að Íslendingum gæfist ennþá kostur á að fá slíkan styrk til framhaldsnáms í Bretlandi.

Chevening-styrkir, sem framan af voru kenndir við British Council, hafa verið veittir Íslendingum frá lokum síðari heimsstyrjaldar, en íbúar um 150 landa geta sótt um styrkina. Nokkuð er um liðið síðan hætt var að veita þá í flestum löndum Vestur Evrópu.

Hafsteinn Gunnar útskrifaðist sem hagfræðingur fyrir tveimur árum síðan. Hann hefur um nokkurt hríð starfað hjá greiningardeild Arion banka. Áður starfaði hann sem fréttamaður á Stöð 2.