Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,59% í dag og endaði í 1.769,74 stigum. Viðskipti á hlutabréfamarkaði námu rúmum 2,8 milljörðum króna.

Aðeins eitt félag hækkaði en það var HB Grandi sem hækkaði um 1,02% í 355 milljón króna viðskiptum. Bréf félagsins eru nú farin að nálgast 35,00 krónur en það er verðið sem Brim er skylt að bjóða í alla hluti félagsins vegna kaupa félagsins á ríflega þriðjungs hlut í félaginu. Standa bréfin nú í 34,60 krónum. Þá stóðu bréf Marel í stað í 386,50 krónum í 544 milljóna króna viðskiptum.

Bréf í öllum öðrum félögum lækkuðu en mest var lækkun á bréfum N1 sem lækkuðu um 2,64% í 228 milljón króna viðskiptum og stóðu við lokun í 110,50 krónum. Næst mest lækkuðu bréf Haga eða um 2,38% í 308 milljón króna viðskiptum. Bréf Haga stóðu því í 41 krónu við lokun markaða. Hagar hófu daginn með snöggri dýfu, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá, en réttu sig þó aðeins af þegar leið á daginn. Um helgina var greint frá því að Samkeppniseftirlitið myndi ekki fallast á tillögur Haga um skilyrði fyrir samruna félagsins við Olís.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,54% í viðskiptum upp á tæpa 2,8 milljarða. Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,18% í tæplega 2,2 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,12% í 0,6 milljarða viðskiptum en óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,30% í 1,5 milljarða viðskiptum.