Hagnaður Haga nam 1,4 milljörðum króna eða um 3,8% af veltu á fyrstu sex mánuðum tímabilsins. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikning fyrirtæksins. fyrir annan ársfjórðung. Hagnaður á öðrum fjórðungi nam 780 milljónum króna samanborið við 682 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Vörusala á öðrum ársfjórðungi nam 19,1 milljarði króna samanborið við 18,1 milljarð á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarafkoma fyrstu sex mánuði tímabilsins

Vörusala tímabilsins nam 37.734 milljónum króna, samanborið við 37.169 milljónir króna árið áður. Söluaukning tímabilsins milli ára er 1,5%. Í matvöruhluta félagsins er söluaukning 1,8% í krónum talið en seldum stykkjum hefur fækkað um 0,6%. Fjöldi viðskiptavina hefur aukist um 0,4% milli ára.

Framlegð félagsins var 9.155 milljónir króna, samanborið við 9.197 milljónir króna árið áður eða 24,3% framlegð samanborið við 24,7% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild lækkar um 37 milljónir króna eða 0,5% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 18,6% í 18,2%.

Á tímabilinu eru gjaldfærðar 53 milljónir króna vegna kaupa félagsins á Olíuverzlun Íslands. Þá var einnig gjaldfært á tímabilinu 50 milljónir króna vegna tapaðra viðskiptakrafna í heildsöluhluta félagsins.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 2.376 milljónum króna, samanborið við 2.378 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 6,3%, samanborið við 6,4% árið áður.

Eignir félagsins í ágústlok námu 30,4 milljörðum króna í ágústlok, þar af námu fastafjármunir 10,6 milljörðum. Eigið fé nam 18,2 milljörðum króna.

Hagkaup mun hætta sölu plastpoka

Um helgina var greint frá því að Bónus muni koma til með að hætta sölu á plastburðarpokum og taka í staðin upp lífniðurbrjótanlega poka. Í tilkynningunni er greint frá því að Hagkaup muni fylgja fordæmi Bónusar innan tíðar.

Verslanir og fyrirtæki í eigu Haga eru Bónus, Hagkaup, Bananar ehf., Aðföng, Hýsing, Útilíf, Ferskar kjötvörur og Zara.