Í dag undirrituðu Hagar hf. kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Olíuverzlunar Íslands hf, eða Olís, og fasteignafélagsins DGV ehf. Með kaupunum fylgir auk þess 40% eignarhlutur í Olíudreifingu ehf.

Heildarvirði Olís er, samkvæmt tilkynningu, 15,1 milljarður króna, en að frádregnum vaxtaberandi skuldum er kaupverð hlutafjár 9.172 milljónir króna. Það er þó með þeim fyrirvara að það geti tekið breytingum vegna afkomu Olís á árinu 2017.

Hækkar ef Olís nær afkomumarkmiðum

Mun þá kaupverðið hækka verði EBITDA félagsins  hærri en 2.100 milljónir króna, að hámarki um 1 milljarð króna, ef það verður 2.300 milljónir eða hærra. Fyrir rekstrarárið 2016 nam EBITDA félagsins 1.908 milljónum króna.

Heildarvirði Olís er 15.100 milljónir króna, eins og áður segir,  og vaxtarberandi skuldir félagsins eru 5.928 milljónir króna.

Greitt með hlutum á genginu 47,5

Kaupverðið er greitt annars vegar með reiðufé og hins vegar með afhendingu á 111 milljón hlutum í Högum, með því skilyrði að seljendur skuldbindi sig til að selja hvorki né framselja hlutina í 12 mánuði frá afhendingu. Við útreikning á kaupverði er miðað við að gengi Haga sé 47,5 en við lokun markaða í dag nam verð bréfa félagsins 49,05 krónum.

Kaupverð DGV er 400 milljónir til viðbótar

Heildarvirði DGV er síðan 1.040 milljónir króna, en vaxtarberandi skuldir þess nema 640 milljónum króna, svo kaupverð hlutafjár nemur 400 milljónum króna.

Heildarkaupverðið sem Hagar greiða því fyrir Olís og DGV er því 9.572 milljónir króna.

Hætt við arðgreiðslur vegna kaupanna

Hafa Hagar samhliða kaupunum og áður tilkynntum kaupum á Lyfju hf. vikið frá áður samþykktri arðgreiðslustefnu félagsins og verður lagt til við aðalfund í júní að ekki verði greiddur út arður árið 2017.