Greinendur hjá Capacent telja að hlutabrét í Högum séu undirverðlögð um 26%. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins í dag. Ráðgjafafyrirtækið metur gengi hlutabréfanna á 56,5 krónur per hlut en það er 26% hærra en gengi bréfanna stóð í við lokun markaða í dag.

Sérfræðingarnir benda á að áhrif innkomu Costco fari sífellt minnkandi. Þeir telja jafnframt að innkoma verslunarrisans á markraðinn hafi aukið skilvirkni í verslunarrekstri Haga. Óhagkvæmum einingum hafi verið lokað og reksturinn hafi verið endurskipulagður. Þessar breytingar hafi orðið til þess að sala á hvern fermeter verslunarrýmis hjá Högum hafi aukist.

Viðskiptablaðið greindi frá uppgjöri fyrsta ársfjórðungs Haga í síðustu viku. Þar kom fram að EBITDA félagsins, eða rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta hafi dregist saman um 6,6% frá því á sama fjórðungi í fyrra. Capacent bendir á ástæðuna fyrir þessum samdrætti vera að framlegð hafi dregist örlítið saman eða um 0,2%. Þá jókst launakostnaður jafnframt um 0,5% og tekjur félagsins drógust saman.