Bandaríkjamaðurinn Oliver Hart og  Finninn Bengt Holmström hljóta hagfræðiverðlaun sænska seðlabankans til minningar um Alfreð Nóbel árið 2016. Kenningar Hart og Holmström eru um samninga og samningagerð.

Frá þessu var greint af Konunglegu sænsku vísindaakademíunni í morgun. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1969.

Oliver Hart starfar við Harvard háskóla og er 68 ára gamall. Hann er jafnframt með doktorsgráðu frá hinum virta Princeton háskóla. Bengt Holmström, sem er 67 ára gamall, starfar við Massachusetts Institute of Technology (MIT) og hlaut doktorsgráðu sína frá Stanford.

Kenningar þeirra fjalla meðal annars um hvernig má á sem bestan máta skrifa samninga þannig að fyrirtæki, starfsmenn og viðskiptavinir séu sáttir.