Greiningardeild Arion banka telur að íslenskt hagkerfi sé heilbrigðara nú en það var í síðustu uppsveiflu.

Í greiningunni kemur fram að sveiflur í undirliðum hagvaxtarins séu töluvert minni nú en í síðustu hagsveiflu. Ástæðan fyrir því er sögð vera sú að markaðsaðilar eru ekki að þenja efnahagsreikninginn jafn mikið og áður. Einkaneysla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur dregist saman og er nú 50%, samanborið við 59% árið 2005.

Þjóðhagslegur sparnaður er talsvert meiri nú en í síðustu uppsveiflu og útlán til heimilanna eru mun lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er einnig talsvert stærri en áður og hrein erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð.

Heimilin hafa svo stýrt hjá beinni gengisáhættu sem gerir Seðlabankanum auðveldara fyrir að lækka vexti ef að það kemur til samdráttar.

Greiningardeildin bendir þó á að nokkra óvissuþætti. Blekkjandi eiginfjárhlutfall á fasteignamarkaði, hækkandi fasteignamat, hægari vöxtur ferðamanna, raungengi íslensku krónunnar og hækkandi laun á vinnumarkaði er meðal þeirra atriða sem bent er á að geti haft áhrif á hagkerfið.