Rekstrarhagnaður Advania Norden á árinu 2016 námu 2.369 milljónum króna og jókst um 15% frá fyrra ári. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 523 milljónum króna. Heildartekjur Advania Norden á árinu 2016 námu 23.141 milljónum króna og jukust um 3% milli ára.

„Rekstur samstæðunnar gekk mjög vel á síðasta ári. Rekstrarárið var það besta í sögu Advania á Íslandi og námu tekjur félagsins 11.455 m.kr. og jukust um 7% frá fyrra ári. Rekstrarafkoman var einnig góð en EBITDA nam 1.002 m.kr. og jókst um 63% á milli ára. Árið 2016 var fyrsta rekstrarár gagnavera Advania í sérstöku félagi og námu tekjur þess 1.284 m.kr. og EBITDA 172 m.kr. Tekjur Advania í Svíþjóð námu samtals 10.464 m.kr. á árinu og jukust um 9% frá fyrra ári. EBITDA Advania í Svíþjóð var 1.241 m.kr. árið 2016 sem er 13% aukning frá árinu áður. Heildartekjur Advania í Noregi árið 2016 námu 1.943 m.kr. Mikill viðsnúningur var í starfseminni og var EBITDA ársins 36 m.kr. en hafði verið neikvæð á árinu áður um 110 m.kr,“ segir í fréttatilkynningu frá Advania.

Thomas Ivarson, stjórnarformaður Advania Norden, segir að þau séu mjög sátt við uppgjörið sem sýni að starfsemi þeirra sé á réttri leið. „Rekstrarafkoma batnar í öllum löndum og framlegð heldur áfram að vaxa. Helsta áskorun í rekstri félagsins er vaxtakostnaður sem er of hár og hefur því verið forgangsverkefni að lækka vaxtaberandi skuldir félagsins.“

Fram hefur komið að eigendur félagsins stefna á skráningu þess í Kauphöllinni í Stokkhólmi á árinu 2018 í samvinnu við Nasdaq á Íslandi.

„Rekstur samstæðunnar gekk mjög vel á síðasta ári og allar rekstrareiningar skiluðu betri afkomu en fyrri ár og jákvæðum rekstarárangri. 2016 er fyrsta rekstarár gagnvera Advania í aðgreindu félagi og þar er tekjurnar komin vel yfir einn milljarð og afkoman góð,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. „Hvað varðar starfsemi utan Íslands þá hefur verkefnastaðan þar verið mjög góð og um 52% af EBITDA samstæðunnar kemur frá rekstri félaga utan Íslands. Sama þróun er að eiga sér stað allstaðar, eftirspurn eftir útvistun og alrekstarþjónustu í upplýsingatækni er stöðugt að aukast.“ segir Ægir.