Hagnaður Deloitte dróst saman um tæplega 80 milljónir á rekstrarárinu 2017 og fór úr 334 milljónum árið 2016 í tæpar 255 milljónir árið 2017. Reikningsár Deloitte er óhefðbundið í þeim skilningi að það er frá 1. júní til 31. maí ár hvert. Rekstrarhagnaður (EBIDTA) ársins 2017 var rúmlega 328 milljónir króna.

Eignir félagsins stóðu í 1.929 milljónum króna og jukust um tæpar 191 milljón milli ára en eigið fé þess dróst saman um rúmar 79 milljónir og var tæp 501 milljón í lok rekstrarársins 2017. Eiginfjárhlutfall Deloitte lækkaði því úr 33,4% árið 2016 niður í 26,0% árið 2017. Skuldir félagsins jukust þannig um tæpar 270 milljónir. Handbært fé Deloitte í lok reikningsársins var rúm 461 milljón króna og hækkaði um 54 milljónir á árinu en handbært fé frá rekstri var tæpar 366 milljónir króna.